Fyrir nokkrum vikum var samþykkt á Alþingi að lækka virðisaukaskatt á túrvörur úr efra þrepi (24%) niður í lægra þrep (11%). Þessi breyting mun taka gildi 1. september en við vorum svo ánægð með þetta að við lækkuðum verð á öllu strax. Vegna þess höfum við verið að draga það að flytja inn vörur á lagerinn okkar þar til eftir að þessi breyting tekur gildi, því þó við höfum lækkað verðið sem nemur þessari skattbreytingu erum við auðvitað ennþá að skila ríkiskassanum sínum 24% þar til 1. september. Þessi skattabreyting gildir fyrir allar vörur hvort sem það séu túrnærbuxur, tíðabikarar ( álfabikarar ), túrtappar eða dömubindi.
Við erum núna með sendingu á leiðinni til okkar sem kemur rétt eftir skattabreytinguna en erum nú þegar búin að opna fyrir forpantanir úr henni. Öll sem forpanta eiga kost á að lenda í endurgreiðslupotti sem við drögum úr eftir að við höfum afgreitt allar forpantanirnar.
Við vonum að þið séuð til í að spila þennan leik með okkur og séuð óhrædd við að forpanta. Svo er bara að sjá hvort önnur fyrirtæki lækki verð á sínum túrvörum...