Ertu að nota tíðabikar í fyrsta skipti?
Svo margar konur hafa fengið nóg af bindum og töppum og mögulega ert þú ein af þeim, með glænýjan tíðabikar í höndunum. Líklega hefur þú lesið leiðbeiningabæklinginn sem fylgdi með og ert tilbúin að prófa. Það eina sem þig vantar núna er nokkur orð um við hverju þú átt að búast þegar þú notar tíðabikar í fyrsta skipti. Þessi samantekt er frá sjóuðum tíðabikaranotendum og sérfræðingum úr Intimina-teyminu.
-
Þú átt eftir að kynnast sjálfri þér betur, mun betur
Já, þú þarft að stinga bikarnum inn - og já, það er þó nokkuð ólíkt því að setja inn túrtappa þar sem þú þarft líka að koma bikarnum rétt fyrir. Best er að vera með opinn huga og hugrakka fingur (engar beittar neglur, takk) en við fullvissum þig um að það mun verða þess virði. Það er gott að vera í betri tengingu við heilsuna þarna niðri og það að læra að þekkja píkuna betur er frábært! -
Þolinmæði er dyggð
Þótt margar konur komist upp á lagið með að nota bikarinn strax er það ekki svoleiðis hjá öllum, en það er allt í lagi. Prófaðu að setja bikarinn inn og taka hann út í sturtunni í nokkur fyrstu skiptin þar sem vatnið gerir hann aðeins sleipari. Ef þú ert ennþá óörugg getur verið hughreystandi að gera þetta þar sem þú og hendurnar eruð hrein. -
Enginn líkami er eins
Mismunandi aðferðir við að brjóta saman bikarinn henta mismunandi líkömum, þannig að ef eitt brot hentar þér ekki, prófaðu þá annað. Við mælum alltaf með því að þú setjir bikarinn aðeins hærra upp í leggöngin en hann þarf að vera svo auðveldara sé að koma honum síðan á fyrir á réttum stað og láta hann opnast. Með því að snúa honum aðeins og toga örlítið í hann getur verið auðveldara að fá síðustu beyglurnar til að opnast. Taktu þessu með ró, slappaðu af. Stíf og stressuð píka er ekki vinkona þín. -
Það gæti lekið fyrst, en þetta lærist fljótt
Oftast gengur vel að nota tíðabikar í fyrsta skipti. En stundum koma upp lekavandræði á meðan þú ert að læra þetta en það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Notaðu endilega túrnærbuxur samhliða til öryggis. -
Þegar bikarinn er kominn inn finnur þú ekkert fyrir honum
Að skipta út bindi og tappa fyrir bikar er eins og að að skipta út bleyju fyrir nærbuxur – í alvörunni. Þegar bikarinn er rétt staðsettur áttu ekkert að finna fyrir honum. Það er einmitt ástæðan fyrir því að margar konur segjast jafnvel gleyma því að þær séu á túr. Intimina-bikarar eru gerðir úr læknisvottuðu sílikoni sem dregur ekki í sig blóðið eða náttúrulegan raka legganganna eins og bindi og tappar gera. Þess vegna valda þeir hvorki þurrki né pirringi. Vei. -
Þú munt vilja tæma bikarinn í sturtunni eða í klósettið
…ekki beint yfir nýju buxunum þínum, að minnsta kosti ekki í fyrstu skiptin! Sumar konur hafa áhyggjur af því að blóðið sullist út um allt. Ef þú fjarlægir bikarinn rétt mun það ekki gerast. Notaðu grindarbotnsvöðvana til að þrýsta bikarnum niður, taktu síðan utan um neðsta hlutann og þrýstu saman til að losa um hann og togaðu hann svo niður mjúklega. Svo einfalt. -
Það er ekkert svo mikið blóð.
Tappar og bindi virðast oft vera stútfull af blóði. Þú gætir orðið hissa hve lítið blóð er í bikarnum þegar þú tæmir hann. Að jafnaði missum við einungis um 60 ml eða fjórar matskeiðar af blóði í hverjum tíðahring. Bikarinn gæti því litið út fyrir að vera hálftómur eftir 12 tíma notkun. Fyrir þær sem blæðir mikið gæti verið sniðugt að velja klassíska Lily Cup til að vera öruggar. -
Túrblóð er ekki eins og annað blóð.
Þú hefur örugglega séð tíðablóð í annars konar tíðavörum, en þegar þú notar bikarinn færðu að sjá nákvæmlega hvernig þetta lítur út. Túrblóð er ekki bara blóð heldur líka frumuvefur úr leginu, frumur úr leggöngum, rauð blóðkorn og prótein. Einhverjum finnst þetta hljóma ógeðslega en af hverju áttu ekki bara að vera stolt af því hvað líkami þinn getur gert?! -
Ekki setja vatnið á fullan kraft
Við tölum af reynslu hér… þegar þú skolar tíðabikarinn undir bununni í vaskinum, ekki þá láta vatnið buna af fullum krafti beint ofan í bikarinn. Það mun valda gosbrunni sem sullast út um allt! Láttu vatnið leka rólega og skolaðu bikarinn varlega. -
Þig mun langa að tala um þetta… við alla
Það að upplifa blæðingar sem fylla ekki ruslakörfuna þína af einnota drasli verður svo frelsandi að þig mun langa að tala um það við alla. Og af hverju ekki að breiða út fagnaðarerindið? Kannski þarf Siggi í bókhaldinu ekki að heyra allt um blæðingarnar þínar, eða hvað? Af hverju ekki að segja öllum frá því að þér líði betur og þú sért að framleiða minna rusl í hverjum mánuði?
Þannig að… þú munt kannski ekki verða tíðabikarasérfræðingur frá fyrsta degi en þrátt fyrir smá mistök, sem þú lærir af, verður þetta upphafið að dásamlegu sambandi.
Við minnum á tilboðið okkar, þegar þú kaupir fimm Modibodi túrnærbuxur færðu Intimina tíðabikar að eigin vali frítt með. Þú setur bara allt í körfuna eins og venjulega og bikarinn reiknast á núlli.
Smelltu hér til að versla.