Eftirfarandi grein er hluti úr umfjöllun Stundarinnar um umhverfismál. Umsjónarmaður var Alma Mjöll Ólafsdóttir.
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.
Arna Sigrún Haraldsdóttir er menntaður fatahönnuður og viðskiptafræðingur. Hún stofnaði fyrirtækið Modibodi Ísland, fyrirtæki sem selur túrnærbuxur að erlendri fyrirmynd. Nærbuxur sem halda vökva og koma í stað þess að vera með dömubindi eða túrtappa. „Eftir að ég varð grænmetisæta fóru umhverfismál að verða mér mikilvægari svo það lá beint við að fara í þennan rekstur. Reksturinn sameinar allt það sem ég brenn fyrir. Eitthvað nýtt í textíl- og fatahönnun, eitthvað umhverfisvænt og svo er þetta frábært viðskiptatækifæri.“
Dömubindi og túrtappa segir Arna vera mjög óumhverfisvænan valkost og með því að velja túrnærbuxur sporni maður við óumhverfisvænni framleiðslu og neyslu og að auki séu túrnærbuxur betri valkostur fyrir líkamann. „Algengasta spurningin sem ég fæ upp á borð hjá mér er „er ekki ógeðslegt að nota túrnærbuxur?“ Mér finnst í raun mjög fyndið að fólk spyrji að einmitt þessu því ef það myndi sjá notað dömubindi í flæðarmálinu væri fyrst hægt að tala um eitthvað ógeðslegt. Svo má ekki gleyma að í dömubindum eru alls konar auka- og eiturefni sem við ættum ekki að vilja hafa nálægt líkamanum, hvað þá píkunni. Í túrnærbuxum eru engin eiturefni og þú hendir þeim ekki bara í ruslið þegar þú ert búin að nota þær einu sinni. Þú notar þær aftur og aftur.“
„Ef það myndi sjá notað dömubindi í flæðarmálinu væri fyrst hægt að tala um eitthvað ógeðslegt.“
Nærbuxurnar sjálfar eru framleiddar á umhverfisvænan hátt. „Buxurnar sjálfar eru úr bambus sem kemur úr sjálfbærri ræktun. Í klofbótinni er merino-ull en merino-ull er í eðli sínu bakteríudrepandi og mjög rakadræg. Svo bætist við þessi tæknilegi textíll sem dregur í sig vökva og kemur í veg fyrir að það leki í gegn. Við bjóðum einnig upp á vegan útgáfu úr pólýester. Fyrirtækið leggur mikið upp úr því að allir framleiðsluþættirnir séu umhverfisvænir.“
Mikilvægt að vera með opinn hug
Þegar kemur að því að skipta úr dömubindum í túrnærbuxur segir Arna mikilvægast að hafa opinn huga. „Manni hefur verið kennt að blæðingar séu sóðalegar og þess vegna sé réttlætanlegt að nota eitthvað sem þú notar einu sinni og hendir svo í ruslið eða klósettið og spáir svo ekkert meira í því.“
Hún telur þó að mikil vitundarvakning hafi orðið þegar kemur að blæðingum og umhverfisvænni kostum. „Þegar ég byrjaði á þessu fyrir tveimur árum var nánast enginn að tala um túrnærbuxur eða túr yfir höfuð. Allt í einu hefur sprungið út umræða um blæðingar og umhverfið, sem ég fagna. Nú er Femínistafélag Háskóla Íslands með túrdaga og mikil gróska í fræðslu um blæðingar, eins og Sigga Dögg kynfræðingur stendur að.“
„Manni hefur verið kennt að blæðingar séu sóðalegar og þess vegna sé réttlætanlegt að nota eitthvað sem þú notar einu sinni og hendir svo í ruslið.“
Konur eru að sögn Örnu hægt og rólega að skipta yfir í umhverfisvænni blæðingar, það komi í skrefum og eitt fyrsta skrefið sé að treysta því að túrnærbuxur virki raunverulega. „Ég þarf stundum að sannfæra nýja notendur um það að buxurnar virki og það blæði ekki í gegn. Ég leiðbeini þeim að prófa þær í fyrsta skipti á auðveldum degi blæðinga, eða þegar blæðir minna, á meðan þær finna tempó sem hentar. Í kjölfarið læra þær hversu margar nærbuxur þær þurfa á sólarhring. Algengt er að konur þurfi tvær til þrjár á sólarhring en það fer algjörlega eftir flæði hverrar og einnar og hvort þær noti bikarinn með á þyngstu dögunum eða ekki. Svo verður að taka fram hvað þetta er æðislega auðvelt þegar þetta kemst í vana. Þú notar bara þessar nærbuxur meðan þú ert á blæðingum og skellir þeim jafnt og þétt í þvottavélina og ferð eftir þvottaleiðbeiningum og það er nú ekki flókið,“ segir Arna.